Rignir blóði

Rignir Blóði

Rignir Blóði

Í Lesbók Morgunblaðsins 29. okt. s.l. er athyglisverð og mjög fróðleg grein, með yfirskrift:  Rignir blóði“.  Meðal annara frásagna um blóðregn, sem þar er frá sagt, er tekin upp frásögn Eyrbyggju um blóðregnið á Fróðá fyrir Fróðárundur.  Hefur mér alltaf þótt mikið til koma þeirrar frásagnar, vegna þess hve nákvæm og trúleg lýsingin er.  Er engu líkara en að þar segi sjónarvottur frá.  Sagan er þó örugglega skráð löngu eftir að atburðurinn gerðist, og virðist höfundur sögunnar því hafa séð hann fyrir innri sjónum, líkt og Jónas sá rauðu blossamóðuna með blágráum reyk yfir, er hann orkti kvæðið Skjaldbreiður.  Í lok greinarinnar er réttilega tekið fram, að ekki geti rignt blóði, en að stundum komi rauð rigning:  „Telja menn að það stafi af því, að mikið sé í loftinu af rauðu sanddufti, sem borist hefur með vindum utan af eyðimörkum.  Þegar þetta duft blandast rigningunni, verður regnvatnið rautt á litinn“, segir í greininni.  Ekki finnst mér þessi skýring um rauða sandduftið sannfærandi, og að minnsta kosti ófullnægjandi, og ósennileg skýring á blóðregninu á Fróðá.  Þar er heldur ekki um venjulega rigningu að ræða, heldur rignir þar sjó, sem mengaður er einhverju því, sem gerir hann rauðan á litinn.

Lítum nú svolítið nánar á frásögn eyrbyggju af atburði þessum, er varð undanfari mikilla tíðinda þar á bænum;  „Sumar var heldur óþerrisamt, enn of haustið kómu þerrar góðir.  Var þá svá komit heyverkum at Fróðá, at taða öll var slegin, enn fullþurr nær helmingrinn.  Kom þá góður þerridagr, og veður kyrrt, ok þurt, svá at hvergi sá ský á himni.  Þóroddr bóndi stóð upp snemma um morgininn ok skipaði til verks.  Tóku sumir til ekju, enn sumir hlóðu heyinu, enn bóndi skipaði konum til at þurka heyit, ok var skift verkum með þeim, ok var Þórgunnu ætlat nautafóður til atverknaðar.  Gekk mikit verk fram um daginn.  Enn er mjök leið at nóni kom skýflóki svartur á himinn norður yfir Skor, ok dró skjótt yfir himin, ok þangað beint á bæinn“  o.s.frv.

Hvers eðlis var þá þessi svarti skýflóki, sem kom upp á himin norður yfir Skor á sólbjörtum haustdegi.  Því er fljótsvarað.  Þetta hlýtur að hafa verið skýstrokkur – cyclon – sem sogið hefur upp í sig sjó hátt í loft upp, svo að hann ber yfir Skor.  Hann kemur að norðurströnd Snæfellsness rétt undan bænum á Fróðá og yfir túnið, og fellir úr sér sjóinn í flekk Þórgunnu, dettur niður er hann kemur yfir land.  Þvermál skýstrokksins má nokkkuð marka af því, að regnið kemur nálega allt, eða meginhluti þess, í flekk Þórgunnu,  „en henni var fengið eitt nautsfóður til atverknaðar“ um daginn,  segir sagan.  Ekki er gott að vita hvað þeir hafa ætlað kú til vetrarfóðurs í þá daga, en varla hefur það verið sérlega stór flekkur, sem hinni öldruðu írsku konu var ætlaður einni til atverknaðar.  Þórgunna hafði ekki hlýtt skipun húsbóndans um að raka heyið saman og setja í sátur, er skýflókinn nálgaðist.  Hennar taða lá því flöt og gegnblotnaði af regninu.  Þegar skýstrokkurinn hafði fellt úr sér sjóinn, birti fljótt aftur og þornaði til.  Allt heyið er flatt lá þornaði fljótt, nema flekkur Þórgunnu, sem ekki þornaði þá um kvöldið, að minnsta kosti.  „Ok aldrei þornaði hrífan er Þórgunna hafði haldið á“.  Skýringin á því, að hey það sem gegndrepa varð þornar seint, er fyrst og fremst sú, að hér er ekki um venjulegt rigningarvatn að ræða, heldur saltan sjó, sem þornar langt um seinna en venjulegt rigningarvatn, og það eins fyrir því þó að það væri blandað sanddufti frá eyðimörkum.  En það er ekki nægileg skýring.  Hrífa Þórgunnu þornaði aldrei, segir sagan.  Vafalaust er þetta orðum aukið.  En hún hefur þornað miklu seinna en eðlilegt þótti, annars hefði þessa ekki verið getið sérstaklega.  Til þess að skýra þetta verður maður að mynda sér einhverja skoðun um rauða litinn á sjónum, sem gerði það að verkum, að menn töldu hann vera blóð.  Sennilegasta skýringin virðist mér vera sú, að það hafi verið rauðir þörungar, sem gerðu rauða litinn. En miklar og þéttar torfur geta stundum verið í sjónum af slíkum örsmáum rauðum þörungum.  Virðist skýstrokkurinn einmitt hafa náð að soga upp í sig eina slíka stórtorfu af rauðum þörungum.  Þar með er þá líka fengin fullgild skýring á frásögn sögunnar, og að hér er ekki um hugaróra að ræða, heldur raunveruleika.  Sjór þornar seinna en vatn.  Sjór mengaður þara þornar afarseint.  Hrífan er hráblaut og slímug svo dögum skiftir.  Hún þornar aldrei.

Mig minnir að Friðþjófur Nansen segi í bók sinni På ski over Grönland frá því, að hann hafi á ferð sinni yfir Grænlandsjökul rekist á rauða flekki í snjónum, sem hann telur vera það sem í gegnum aldir hefur verið nefnt blóðregn, og mikill ótti hefur stafað af, og gefi þar þá skýringu á rauða litnum, að skýstrokkar beri inn á jökulinn sjó mengaðan rauðum þörungum.  Bók Nansens hef ég ekki við hendina, en gaman væri ef Lesbókin vildi láta huga að þessu.

Árni Vilhjálmsson læknir.