Nokkur líffæraheiti (nýyrði), kynfræðsla, klám

Nokkur líffæraheiti (nýyrði), kynfræðsla, klám

Nokkur líffæraheiti (nýyrði), kynfræðsla, klám

Árni Vilhjálmsson, læknir:

Nokkur líffæraheiti (nýyrði), kynfræðsla, klám

„Bræður mun berjast og að bönum verðast, munu systrungar sifjum spilla.  Hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld, skálmöld, skildir eru klofnir, vindöld, vargöld, áður veröld steypist, mun engi maður öðrum þyrma.“

Svo segir í Völuspá.  Athyglisvert er hve völvan leggur mikla áherzlu á siðleysið, og hve hættulegt það sé.  Bræðravíg, sifjaspell og hórdómur er það fyrsta, sem hún nefnir. Síðan koma ófriður og styrjaldir – skeggöld, skálmöld – og loks hallæri – vindöld, vargöld – stórviðri og snjóalög svo mikil, að úlfarnir (vargurinn) ryðjast ofan í byggð til að leita sér að æti.

Nú er með mestu menningarþjóðum runnin upp ný siðferðisóöld.  Klámrit eru að verða uppáhaldslesning ungu kynslóðarinnar.  Kynmök eru talin svo sjálfsögð, að þau heita bara „að sofa hjá“.  Klámkvikmyndir, þar sem náttúrulausir kynvillingar eru látnir skaka sig utan í og á skækjum og öðrum léttúðardrósum, gegn ríflegri greiðslu, eru sýndar jafnt fullorðnum sem unglingum og taldar mikilsverð fræðsla og nauðsynleg.  Á þeim er hægt að græða milljónir.  Þar liggur hundurinn grafinn.

Menn segja, að fræðsla um kynferðismál þurfi að komast á í skólum.  Þetta er alveg rétt.  Það þarf að fræða unglingana um kynferðismál og getnað af hispursleysi, en með varúð og kunnáttu.  Það er ekki stætt á því lengur að segja börnunum, að storkurinn hafi komið með barnið, sem móðir þeirra fæddi í gær.  Í sveitum landsins fá börn og unglingar sjálfkrafa fræðslu um kynferðismál.  Þau sjá húsdýrin eðla sig og horfa á þegar kálfurinn og lambið fæðast.  Sjá að kálfurinn kemur út um burðarlið (rauf) kýrinnar og vita, að hann kemur úr kviði móðurinnar.  Börn í kaupstöðum og borgum fá litla vitneskju hér um, nema þá helst þau sem dvelja í sveitum á sumrin.

Þegar ég var læknir á Vopnafirði kom ég ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum á stofn unglingaskóla.  Kenndi ég þar tungumál, reikning og heilsufræði.  Í þessum unglingaskóla hélt ég uppi fræðslu um kynferðismál í sambandi við heilsufræðina.  Fræddi unglingana um kynfæri karla og kvenna, eðlunina og frjóvgunina og þróun fóstursins í leginu, svo og um fæðingu afkvæmisins.  Mér virtust unglingarnir kunna að meta þessa fræðslu og vera mér þakklátir fyrir hana.

Við þessa kynfræðslu rak ég mig á það, að töluvert vantaði á að reglulega góð nöfn væru til yfir suma hluta kynfæranna.  Þetta sama hefur komið fram í vetur í hinum miklu deilum og skrifum um klám og klámmyndir.

Ég vil nú reyna að gera þessu nokkur skil og koma á framfæri nokkrum nýyrðum í sambandi við kynfærin.  Kynfæri konunnar eru öll innbyggð, vel falin og vandlega varin í grindarholinu.  Þegar litið er á nakta konu er ekki annað að sjá milli fóta henni en skaphárin.  Þegar skaphárin hafa verið rökuð af konunni, svo sem gert er við fæðingu og aðgerðir á kynfærum hennar, líkist hún mest líkneski af konu eða „ginu“.  Þó getur þarna að líta rifu eða glufu milli þykkra húðfellinga.  Þarna er fæðingaropið.  Ég legg til að glufan ásamt fæðingaropinu sé kölluð rauf.  (Rauf 1. Op, gat.  2. Rifa, glufa, sjá orðabók Menningarsjóðs).  Barmarnir beggja vegna glufunnar raufarbarmar – labia majora -.  Holið innan raufarbarmanna raufarhol – vulva -.  Slímhúðarfellingarnar í raufarholinu – raufarholsbarmar – labia minora -.  Inn í raufarholið opnast leggöngin að aftan, en lítið eitt framar þvagrásin.  Nokkru framar, millli raufarholsbarmanna, er smálíffæri, clitoris, sem svarar til sinar karlmannsins.  Þetta líffæri vil ég nefna örsin – mikro penis. – Líffæri þetta er þýðingarmikið fyrir konuna við samfarir, því að nægileg erting á því er afgerandi um það, hvort konan fær fullnægju við samfarir eða ekki.  Um önnur líffæraheiti þarf ekki að ræða.  Þar eru ágæt og rótgróin heiti svo sem:  Leggöng – vagina -, leg – uterus -, eggjastokkar og eggjakerfi.  Oft heyri ég konur tala um móðurlíf.  Þessi leiðinlega dönskusletta (livmor) á að hverfa með öllu, hún þjónar engum tilgangi.  Orðið leg er stutt og laggott og þjált í samtengingum svo sem:  Leggöng, legháls, legbolur, leghol.

Kynfæri karlmannsins eru útbyggð, óvarin og ákaflega viðkvæm, sérstaklega eistun.  Að sparka í klof á karlmanni er hið mesta fantabragð og óhæfa.  Hitti sparkið eistun fær maðurinn lost, jafnvel banvænt lost.  Nöfn á kynfærum karla, öðrum en getnaðarlimnum, eru rótgróin í málinu og óaðfinnanleg, svo sem pungur, eistu, sæðisgangur, sæðisblöðrur.  Um getnaðarlim karlmannsins – penis  – er það að segja, að nafnið á honum er mjög á reiki.  Mæður smádrengja nota orðið „tilli“ og getur það vel gengið.  Orðið „tittlingur“ fellur mér ekki.  Í orðabók Guðmundar Hannessonar er orðið „reður“, það fellur mér ekki.  Ég legg til að getnaðarlimur karla sé kallaður sin. Orðið er stutt og laggott og bændur nota það um getnaðarlim húsdýra sinna.

Að lokum nokkur aðvörunarorð til unga fólksins.  Hið „ljúfa líf“, lauslætið, er ekki eins eftirsóknarvert og ætla mætti í fljótu bragði.  Því fylgir mikil áhætta, sjúkdómar og vonbrigði.  Ein þokkaleg og vel hirt kona ætti að nægja hverjum karlmanni.

Kynsjúkdómar hafa færzt í aukana á Norðurlöndum síðustu árin, sérstaklega lekandi.  Lekandasýklarnir hafa skotið vísindamönnum og læknum ref fyrir rass.  Hefur þeim tekist að brynja sig gegn lyfjum, sem á þeim hafa unnið til skamms tíma.  Lekandinn á Grænlandi er orðinn þar ólæknandi og hafa Danir af því þungar áhyggjur.  Sama vandræðaástand mun skapast á Norðurlöndum, ef vísindamönnum tekst ekki fljótlega að finna upp ný lyf, sem unnið geta á þessu illþýði.  Lekandi er hvimleiður og bráðsmitandi kynsjúkdómur.  Smitun verður við samfarir – coitus -.  Á karlmönnum veldur hann bráðri bólgu í þvagrásinni, tíðum og ákaflega sárum þvaglátum.  Eitt af eldri skáldunum okkar lýsti þessum mikla sársauka við þvaglát svo:  „að það væri eins og að míga rakhnífum.“  Karlmenn neyðast því til að leita læknis jafnskjótt og sjúkdómurinn gerir vart við sig.  Um konur gegnir öðru máli.  Hjá þeim veldur sjukdómurinn ekki jafn miklum og óbærilegum þrautum og hjá karlmönnum.  Þær geta því gengið með sjúkdóminn langtímum saman án þess að leita til læknis.  Að sjálfsögðu eru þær smitandi þar til lækning hefur farið fram og smita hvern karlmann, sem hefur samfarir við þær, nema þá að karlmennirnir séu svo hyggnir að nota verjur – smokk – við athöfnina.  Leiti konan ekki læknis berst bólgan frá raufarholi upp leggöng, gegnum leg og eggjastokka alla leið upp í kviðarhol, veldur lífhimnubólgu og margs konar óþægindum.  Konur geta auk annars orðið óbyrjur af þessum sökum.

Um hinn margþætta og hættulega kynsjúkdóm,  sárasótt – syphilis – er ekki tími til að ræða hér.

(Birtist í Mbl. 13. febrúar 1971)