Læknaskortur í útkjálkalæknishéruðum

Læknaskortur í útkjálkahéruðunum

Læknaskortur í útkjálkahéruðunum

Læknaskorturinn í útkjálkalæknishéruðunum.

Íslenzkir læknar dýrmæt og eftirsótt útflutningsvara.
Sérhæfing lækna aðalorsökin.

Mikið hefur verið rætt um það undanfarið, hve erfiðlega gengur að fá lækna til þess að þjóna fámennum og afskekktum sveitahéruðum.  Fullsannað er að nóg er til af læknum, og engin læknafæð í heild er fyrirsjáanleg í náinni framtíð.  Þeir sem um þetta hafa skrifað í blöð telja aðalorsökina þá, að læknarnir í útkjálkahéruðunum séu illa launaðir, og að ekki sé nógu vel að þeim búið.

Um fyrra atriðið er það að segja, að það fær ekki staðist.  Ef frá eru talin allra lökustu héruðin:  Borgarfjörður eystri, Flateyjarhérað, Árneshérað, og ef til vill Reykhólahérað, er fullvíst að læknar hafa mjög góðar tekjur, einnig í hinum smærri héruðum.  Embættislaun þeirra eru 6500 kr. á mánuði og aukatekjur annað eins að minnsta kosti, eða um 13.000 kr. á mánuði.  Launahækkun mundi ekki verða þeim að miklu liði, þareð meginhluti hennar yrði aftur af þeim tekinn í útsvari og skatti.

Hitt atriðið er miklu þýðingarmeira fyrir læknana, að vel sé að þeim búið heima í héruðunum.  Þeir þurfa að fá rúmgóða bústaði ókeypis, eða fyrir mjög vægt gjald.  Sanngjarnt virðist að ríkið legðiþeim til læknisáhöld öll án endurgjalds, en að þeir bæru ábyrgð á þeim og endurgreiddu þau áhöld sem týndust og gengju úr sér.  Yrði látin fara fram úttekt við læknaskipti.  Þá yrði að sjá um að læknarnir geti fengið hæfilegt sumarfrí sér til hvíldar og hressingar, t.d. 1 mánuð árlega, eða að minnsta kosti 1 mánuð annaðhvort ár.  Áríðandi er að gefa læknum í minnst eftirsóttu héruðunum fulla tryggingu fyrir því, að þeim verði gefinn kostur á betri héruðum eftir nokkurra ára þjónustu.

Af því sem fram hefur komið opinberlega er svo að sjá, sem enginn hafi komið auga á orsökina að þessu ástandi læknaþjónustunnar í dreifbýlinu.  Orsökin er þó nærtæk og fljótfundin.  Hún er beinlínis afleiðing af sérhæfingu læknanna og ákafri sókn til þess að geta talist sérfræðingar .  Viðleitni læknanna í þessa átt er að sjálfsögðu allrar virðingar verð, en hún getur ekki þjónað íslenzkum hagsmunum og staðháttum, nema að vissu marki.  Fólkið í landinu er alltof fátt til þess að allur sá sægur sérfræðinga fái notið sín.  Afleiðingin er því sú, að íslenzkir læknar eru að verða dýrmæt og mjög eftirsótt útflutningsvara.  Það er staðreynd að læknar ná ekki fótfestu í þéttbýlinu, nema þeir geti skreytt sig með sérfræðititli, enda þótt aðalstarf þeirra þar verði það að vasast í almennum praxis, eða læknisþjónustu, rétt eins og hinn ótitlaði læknir.  Þetta veldur svo því, að hinn almenni ótitlaði læknir er smátt og smátt að hverfa í skugga sérfræðinganna.  Honum er orðið óstætt , hversu góður læknir sem hann kann annars að vera.  Í augum fólksins eru sérfræðingarnir einskonar guðir, og það virðist trúa því að þeir sjái sem Óðinn „of heim allan“, og að öll vizka og þekking veraldar sé saman komin í þeirra haus.  Þó fer því víðsfjarri að svo sé, og utan síns sérsviðs munu þeir enga yfirburði hafa fram yfir hinn almenna lækni.

Enn sem fyrr er þjóðinni það höfuðnauðsyn að eiga vel menntaða, dugmikla og vitra lækna til þjónustu í byggðum landsins.  Menn með heilbrigða skysemi, sem láta sér ekki allt í augum vaxa.  Menn sem skilja fólkið ogeru reiðubúnir til þjónustu við menn og málleysingja, af samúð með öllu sem andar og hrærist.  Læknirinn á ekki að vera fjárplógsmaður og ræningi, heldur hámenntaður maður og hinn miskunnsami Samverji, sem hjálpaði hinum særða, setti hann upp á sinn eyk og greiddi fyrir hann í gistihúsinu.

Málið allt er til skammar fyrir læknastéttina og henni ber, sóma síns vegna, að leysa það, ef ekki með öðru þá með því að senda sérfræðinga til þjónustu í útkjálkahéruðunum.  Þeim er það engin vorkunn, og ekki meiri vandi en að elta sínar „skjátur“ um allan Reykjavíkurbæ.

Árni Vilhjálmsson fyrrv. héraðslæknir