Hlíðar-Gunna

Hlíðar-Gunna

Hlíðar-Gunna

Fyrir löngu síðan bjó í Hlíð á Langanesi bóndi er Torfi hét.  Hann var hreppsstjóri í Sauðaneshreppi og einn helzti fyrirmaður sveitar sinnar.  Eins og þá var venja annaðist Torfi málefni sveitar sinnar, þar á meðal umsjá og ráðstöfun á sveitarómögum.  Þannig hafði hann komið fyrir sveitarómaga nokkrum til framfærslu hjá hjónunum í Tunguseli, sem nú er innsti bærinn í Sauðaneshreppi, og stendur við Hafralónsá austan megin, í tungunni milli Kverkár og Hafralónsár.  Konan í Tunguseli hét Guðrún, en nafns bóndans heyrði ég ekki getið.

Sá orðrómur komst nú á kreik í sveitinni að illa væri farið með þurfalinginn í Tunguseli, og barst hann til eyrna hreppsstjórans.  Þóttist hann ekki geta komist hjá að athuga hver sannindi væru á um orðróm þennan, og gerði sér því ferð að Tunguseli.  Þegar Torfa bar þar að garði stóð svo illa á að konan hafði nýlega alið barn, og lá á sæng.  Þegar Torfi frétti hvernig ástatt var með konuna hætti hann við að ganga í bæinn og hafa tal af þeim Tunguselshjónum, en mun hafa náð tali af niðursetningnum.  Enda þótt hreppsstjóri léti ekkert uppi um erindi sitt frétti konan þó um komu hans, og gat sér nærri til um erindi hans.  Er talið að henni hafi orðið svo mikið um, og reiðst ákaflega komu hreppsstjórans, að hún veiktist snögglega og dó.

Eftir lát Guðrúnar í Tunguseli varð þess fljótlega vart að hún ásótti Torfa hreppsstjóra í Hlíð og nánustu ættingja hans.  Var hún upp frá því nefnd Hlíðar-Gunna.  Ásótti hún í byrjun konu Torfa, en þó alveg sérstaklega dóttur hans, svo að henni hélt við sturlun.  Varð henni ekki vært í Hlíð og flúði vestur sveitir, vestur fyrir Skjálfandafljót.  Þegar er hún hafði verið ferjuð vestur yfir Skjálfandafljót féll snögglega af henni álagahamurinn.  Lofaði hún Guð fyrir lausnina, því að nú væri hún laus við Hlíðar-Gunnu.  Dvaldist hún það sem eftir var æfinnar vestan Skjálfandafljóts og kom aldrei til átthaga sinna aftur.

Frá Torfa hreppsstjóra er það að segja að Hlíðar-Gunna ásótti hann allt til æfiloka.  Eitt sinn er Torfi var staddur á Sauðanesi sótti Gunna svo fast að honum að honum lá við óviti og óttuðust menn um líf hans.  Var þá gripið til þess ráðs að senda út í kirkju eftir messuklæðum prests, og þau breidd yfir Torfa.  Létti þá aðsókninni og Torfi hjarnaði við.

Torfi varð gamall maður, og blindur í elli.  Hafði hann þá, er hann var blindur orðinn, þann starfa að berja harðfisk á steini á bæjarhlaðinu í Hlíð og hafði til þess gilda sleggju.  Eitt sinn er að var komið út á hlaðið þar sem að Torfi sat við iðju sina, fundu menn hann dauðrotaðan og örendan.  Hafði sleggjan hrokkið í enni honum og rotað hann.  Voru menn þess fullvissir að þar hefði Hlíðar-Gunna verið að verki.

(Vélritað eftir handriti Árna Vilhjálmssonar – Aagot Árnad.)