Ávarp í sjötugsafmæli Guðbjargar Hjartardóttur

Ávarpið handskrifað á PDF sniði

Ávarpið handskrifað á PDF sniði

Árni Vilhjálmsson, hjeraðslæknir:

Ávarp flutt í sjötugsafmæli frú Guðbjargar Hjartardóttur að Hofi í Vopnafirði.

Þegar jeg í dag kem hingað að Hofi til þess að heilsa upp á frú Guðbjörgu Hjartardóttur á sjötugsafmæli hennar, reikar hugur minn til liðins tíma, og til æskustöðva okkar beggja í hinum breiða dal, sem gengur inn af Þistilfjarðarflóa.  Ótal myndum frá liðnum tíma bregður fyrir.  Í þetta sinn verður þó fyrst fyrir myndin af hinni gáfuðu, dáfríðu og hýrlegu hreppsstjóradóttur á Ytra-Álandi í Þistilfirði.  Enginn, sem sá þessa glæsilegu yngismey gat verið í minsta vafa um það, að þar færi mikill og ágætur kvennkostur.  Mátti með fullri sanngirni heimfæra til hennar lýsingu Njáluhöfundar á Unni Marðardóttur gígju á Velli á Rangárvöllum:  “Hún var væn kona og kurteis og vel at sjer, og þótti sá kostur – þ.e. kvennkostur – bestur á Rangárvöllum.”.

Ekki kann jeg að rekja ætt frá Guðbjargar að langfeðgatali.  Þess gerist heldur engin þörf.  Sjálf ber hún það með sjer, að hún er af góðum stofni og traustum, jafnt til líkama og sálar.  Þar sem jeg er rúmum fimm árum yngri en frú Guðbjörg og langt var á milli æskuheimila okkar, og þau sitt í hvorum hreppi, þá kynntist jeg henni og fólki hennar ekki nema mjög lauslega.  Móður hennar sá jeg aðeins, en Hjört hreppsstjóra sá jeg oft.  Hann var hár maður vexti, grannholda og skarpleitur, talinn vel greindur, og hinn mesti athafnamaður, hagur vel á trje og járn, að þeirra tíma hætti.  Hann var einn helsti fyrirmaður sveitar sinnar og hreppsstjóri svo legni sem jeg man.  Heimilið var mannmargt, börnin mörg og mannvænleg, og komust öll til góðs þroska að því jeg best veit.  Hagur heimilisins mun hafa verið góður, enda þótt ekki hafi verið um ríkidæmi að ræða, enda er Ytra-Áland framúrskarandi góð sauðjörð, og getur fullorðið fje gengið þar fram gjaflaust í íslausum vetrum.

 

Inn af Þistilfjarðarflóanum gengur breiður dalur inn í landið.  Að suðaustan takmarkast dalur þessi af Helkunduheiði, hálendishrygg sem gengur innan af miðhálendi landsins út eftir Langanesi allt að Sauðanesi.  En að norðvestan af hálendishrygg, sem gengur frá Rakkanesi, austan Raufarhafnar, allt inn á miðhálendi landsins til Möðrudals.  Frá æskuheimili mínu var þessi fjarlægi fjallahringur frá suðri til norðurs undrafagur til að sjá, enda eru þar mörg og sjerkennileg fjöll, öll þó fremur lág.  Hef jeg ekki annan fjallahring fegurri og hlýlegri litið, nema ef vera skyldi fjallgarðurinn á Reykjanesskaganum sjeður frá Reykjavík.

 

Eftir þessum breiða dal falla 5 ár til sjávar, allar nokkuð vatnsmiklar nema Laxá, sem er aðeins smáspræna.  Austast í dalnum fellur Hafralónsá til sjávar.  Skilur hún milli Sauðaneshrepps og Þistilfjarðarhrepps.  Þar næst kemur Laxá, þá Hölkná og Sandá, en vestast Svalbarðsá.  Ytra-Áland stendur út við sjó vestan undir allháum ási milli Hölknár og Sandár.  Inn frá fjarðarbotninum vestan Hafralónsár ganga lágir ásar inn í landið vaxnir lyngi og víði, en á milli ásanna eru flóar og forir.  Úti undir sjó eru ásarnir nokkuð blásnir, en þegar lengra inn í landið kemur verða þeir lægri og fullgrónir, og dalirnir allir ein samanhangandi mjúklega báruð iðandi grassljetta.  Sjeð af fjallsrananum þar sem í ungdæmi mínu stóð bærinn Hafursstaðir er þetta hið mesta samfellda gróðurlendi sem jeg hef augum litið hjer á norðausturkjálka landsins, enda eru hjer hinir ákjósanlegustu sumarhagar fyrir sauðfje.  En hjeraðið veit gegn Dumbshafi og hjer er mikið vetrarríki er frá sjó dregur.

 

Þetta fagra hjerað á eins og svo mörg önnur “sína sögu, sigurljóð og raunabögu”.  Eyðibýlin tala sínu máli og sýna best að hjer var áður mikil og þjettsetin byggð.  Á æskuárum mínum var talið að um 30 eyðibýli væru í Þistilfjarðarhreppi.   Síðan hafa nokkur bæst við, svo að líklegt má telja, að þau sjeu nú nær 40.  Það er til þessarar sveitar og heiðarbýla Axarfjarðarheiðar, sem Jón Trausti sótti efnið í Heiðarbýlissögur sínar.  Harðindakaflinn milli 1880 og 1890 varð þessum sveitum þungur í skauti.  Bændurnir á heiðarbýlunum flosnuðu upp og flýðu til Ameríku, eða annara hjeraða, þar sem vænlegra þótti til afkomu.

 

Í þessu hjeraði fæddist frú Guðbjörg árið 1889, í lok hins mikla harðæris.  Hún ólst upp með fólki, sem lifað hafði og reynt hin hörðu ár, og hafði mótast af þeirri reynslu og því harðræði, sem byggðarlagið hafði orðið fyrir.  Ekki gat hjá því farið að lífsviðhorf þessa fólks setti sinn svip á lífsviðhorf hinnar gáfuðu ungu stúlku.  Merki þess hafa verið auðsæ í öllu hennar lífi og dagfari.  Hún hefur allt sitt líf staðið föstum fótum í fortíð sinni og vandlega gætt höfuðdyggða liðinna kynslóða:  Iðjusemi, hófsemi, sparsem og nýtni!  Jeg efa ekki að sumu nútíðarfólki finnist að hún hafi iðkað þessar dyggðir um of.  En þá vil jeg bara segja þeim hinum sömu, að þeim sjálfum og þjóðfjelagi okkar mundi vegna betur “ef væru margir slíkir”.

 

Batnandi árferði og bættur hagur einstaklinga gerði hinni ungu stúlku fært að afla sjer menntunar svo sem hugur hennar og hæfileikar buðu.  Hún stundaði nám við Kvennaskólann á Akureyri sem þá var aðalmenntastofnun húsmæðraefna norðanlands.  Hóf síðan nám í hinum nýstofnaða Kennaraskóla Íslands og lauk þar kennaraprófi.  Enn síðar, áður en hún giftist, stundaði hún nám við húsmæðraskóla í Danmörku.  Hún starfaði um allmörg ár sem barnakennari og barst af þeim sökum, eða sem barnakennari, inn í þetta hjerað.  Hjer voru ráðin örlög hennar, er hún giftist hinum unga aðstoðarpresti á Hofi, sjera Jakobi Einarssyni, nú prófasti á Hofi.  Þar hefur hún lifað og starfað og tekið miklu ástfóstri við staðinn og hjeraðið, svo að nú mun enginn staður henni ástfólgnari en Hof.

 

Jeg þarf ekki að segja þessa sögu lengur.  Þið þekkið öll prestfrúna á Hofi, sem dvalið hefur og starfað meðal yðar í áratugi. Þið þekkið öll hið ljúfa viðmót hennar, látlausa framkomu, gestrisni hennar og hófsama glaðværð, fróðleik í fornum og nýjum bókmentum, skarpleg tilsvör og leiftrandi gáfur.  Ykkur er einnig kunnugt að hún er hamhleypa til allrar vinnu, og kann vel að skipuleggja störf sín og heimilishald.

 

Konráð Gíslason sem þekkti Jónas Hallgrímsson allra manna best, sagði af miklum harmi, að Jónasi látnum:  “Við vissum ekki hver hann var, og hvað með honum bjó.”  Þessi sjötuga hefðarkona er nú að yfirgefa þetta hjerað á næstunni.  Látum það ekki á sannast að “við vissum ekki hver hún var og hvað með henni bjó.”

 

Sjálfur þakka jeg frú Guðbjörgu langa og ánægjulega samveru um 35 ára skeið.  Hjer að Hofi hef jeg oft komið og notið hinnar miklu gestrisni og fágætu alúðar prófastshjónanna, sem ætíð hafa tekið mjer opnum örmum, og með þeim hlýleik og góðvild, sem þeim báðum er svo eiginleg.  Hjer á þessu ágæta heimili hef jeg á liðnum árum átt margar ógleymanlegar ánægjustundir.  Jeg þakka frú Guðbjörgu margháttaða vinsemd í garð konu minnar og barna.  Jeg óska henni til hamingju með afmælisdaginn, óska henni hamingju, friðar og farsældar á ókomnum æfiárum.