Lífsbjörg 1946

Ávarp flutt í Staðarholti 6. júlí 1996
á 50 ára afmæli Kristínar Jónsdóttur

Góðir gestir!

Hvers vegna erum við hér?  Það vitið þið ekki nákvæmlega.  Nú hugsið þið:  Ertu að djóka gamli?

Nei, ég er ekki að djóka, við erum hér vegna þess að kraftaverk gerðist fyrir 50 árum.  Ég bið ykkur að fylgja mér til þess tíma.  Ung hjón höfðu nýhafið búskap, bjartsýni ríkti.  Á vordögum var von á barni, sem rækilega minnti á sig með miklum hreyfingum (snemma byrjar það) og sjálfsagt oft búið að snúa sér, því naflastrengurinn var margvafinn um hálsinn.

Í byrjun júlí rann upp sú stóra stund, konan tók léttasóttina, engar áhyggjur, ljósmóðir og læknir á staðnum, bara að koma henni á sjúkraskýlið.

En fæðingin tók lengri tíma en búist var við.  Þrír sólarhringar liðu, án þess að unginn birtist og flugvél höfð til taks (eða búið að panta hana).

En þá þurfti skyndilega að bregðast við og læknirinn veitti hjálpina.  Barnið kom í heiminn og móður bjargað, en litla stúlkan var ekki með lífsmarki.

Og nú hóf læknir lífgunartilraunir.  Mesti lífgunartími er talinn 25 mínútur.  20 mínútur liðu, 21 og 22 og loks á 23. kom viðbragð.

Í því kemst móðirin til meðvitundar og sér barnið hafið hátt á loft um leið og læknir segir:  “Svona kvenmaðurinn, þetta líkar mér!”

Þarna gerðist kraftaverkið, læknirinn hafði bjargað bæði móður og barni – og þar með allri fjölskyldunni, því nákvæmlega 20 árum áður bjargaði hann föðurnum með meistaralegri aðgerð heima í rúmi í Skógum án aðstoðar fagfólks.

Þessi læknir var Árni Vilhjálmsson sem þjónaði okkar læknishéraði í hart nær 36 ár.  Hann var stærstur í verkum sínum þegar mest á reið.  Blessuð sé minning hans.

Þremur klukkustundum áður en þetta gerðist varð ég að yfirgefa sjúkraskýlið, því verið var að rýja féð og óhjákvæmilegt að sinna því.  Heima í Skógum var ekki vitað um þessa atburðarás, því ekki var kominn sími.

Óvænt gleði var að fá fréttirnar, sem bóndinn í Hvammsgerði flutti okkar af réttarveggnum um miðnæturskeið, að fædd væri stúlka.  (Hann var staddur í kaupstað og beðinn að flytja fréttina.)

Hér er því tvöfalt tilefni að gleðjast yfir lífgjöf mæðgna sem eru hér í fullu fjöri.

Hér stendur stoltur faðir og hamingjusamur eiginmaður í þakkarskuld við Guð og góða menn.

Í kvöld fögnum við lífinu og að enn gerast kraftaverk.

Jón Þorgeirsson.