Kveðjuræða, starfslok á Vopnafirði

Kveðjuræðan handskrifuð á PDF sniði

Kveðjuræðan handskrifuð á PDF sniði

Árni Vilhjálmsson héraðslæknir á Vopnafirði:

Ræða flutt í kveðjusamsæti er Vopnfirðingar héldu haustið 1959 til heiðurs læknishjónunum og prófastshjónunum, en þeir létu þá báðir af embætti, Árni Vilhjálmsson héraðslæknir og sr. Jakob Einarsson prófastur á Hofi.

Napóleon Bonaparte Frakklandskeisari lagði eitt sinn í veizlu svofellda spurningu fyrir hefðarfrú nokkra:  Hvað haldið þér að sagt verði um mig þegar ég verð farinn?  Frúin hóf upp skjall mikið um ágæti keisarans, og hinn mikla og almenna söknuð, er verða mundi eftir brottför hans.  En Napóleon svaraði stuttur í spuna:  Menn munu segja:  “En sá léttir!”  Napóleon varð sannspár um þetta.  Svo mun og einnig verða hér, er tveir aldraðir embættismenn yfirgefa héraðið, hvað sem líður öllu skjalli og harmatölum um söknuð og sút.  Það er órjúfanlegt lífsins lögmál, að hinu gamla er á eld kastað, en nýtt kemur í staðinn.  Hið unga hefur ætíð byrinn með sér, af því að þess er framtíðin.  Og hvað ættum við, aldraðir menn, svo sem annað að gera en að hverfa á braut?  Á prestinn vill enginn hlýða, og lækninum er ætlað það virðulega hlutskipti, að samþykkja fyrirframgerðar ákvarðanir fólksins, án nokkurs samráðs við hann, um að senda með flughraða, til sérfræðinga, sjúklinga með ómerkilega og auðlæknaða kvilla, og að sjálfsögðu á kostnað hinnar almennu samhjálpar, sjúkrasamlaganna.

Þegar ég nú yfirgef héraðið sem læknir, þá er það með engum söknuði.  Ég er uppgefinn á viðureigninni við hinn nýja Glám:  Óttann, ístöðuleysið, tauga-veiklunina, og sérfræðingagapið.  Í rauninni er það svo, að hinum almenna lækni er að verða óstætt.  Bilið milli nýtízku sjúkrahúsa með háþróaða tækni og fullkomna sjúkraþjónustu, og héraðslæknis í afskekktu héraði, með ófullkomna tækni og fá úrræði, önnur en brjóstvit sitt, er orðið svo breitt, að erfitt verður að brúa.  Í augum fólksins eru sérfræðingarnir eins konar guðir, og það virðist trúa því að þeir sjái sem Óðinn “of heim allan”, og að öll vizka og þekking veraldar sé saman komin í þeirra haus.  Þó fer því víðs fjarri að svo sé, og utan síns sérsviðs munu þeir enga yfirburði hafa fram yfir hinn almenna lækni.  Hin öra þróun læknavísindanna síðustu áratugina hefur leitt til sérhæfingar, og sérnáms á takmörkuðu sviði, í æ ríkari mæli.  Og þessi þróun hefur öll orðið á kostnað hins almenna læknis.  Hann er orðinn vanmetinn, svo að innan tíðar vill enginn taka að sér störf hans.

Ég tel, að þessi þróun sé bæði heimskuleg og hættuleg í jafn fámennu þjóðfélagi sem okkar, þar sem fátt fólk er dreift um stórt landssvæði, erfitt umferðar mikinn hluta ársins.  Enn sem fyrr er þjóðinni það höfuðnauðsyn að eiga vel menntaða, dugmikla og vitra lækna, án allra sérfræðititla, til þjónustu í byggðum landsins.  Menn með heilbrigða skynsemi, sem láta sér ekki allt í augum vaxa.  Menn sem skilja fólkið, og eru reiðubúnir til þjónustu við menn og málleysingja af samúð með öllu sem andar og hrærist.  Sjúkrahúsin eiga að taka að sér allar meiri háttar aðgerðir, en sérfræðingar fágæta sjúkdóma og erfiða viðfangs fyrir hinn almenna lækni.  Fyrir þjóðina er ástæðulaust að kosta lækna til sérnáms, til þess eins að vasast síðan í almennum praxis, þar sem að þeir hafa enga yfirburði fram yfir hinn almenna lækni.

Um störf mín hér í 35 ár er ekki mitt að dæma, heldur fólksins, sem notið hefur þjónustunnar.   Mér hefur alltaf verið það ljóst, að “þekking vor er í molum”, og sú fluga hefur aldrei komið í höfuð mér að ég væri ”ljós heimsins”.  Ég hef reynt að leysa hvern vanda með rólegri yfirvegun, eftir því sem ég hef best vitað og talið skynsamlegt.  Mér mundi ekki koma á óvart það, að störf mín yrðu betur metin er frá líður, og önnur reynsla er fengin.

Á langri læknisæfi eru vonbrigðin mörg, en einnig nokkrir sólskinsblettir.  Eins og svo mörgum öðrum urðu það mér mikil vonbrigði, að hverfa frá hámenningu og starfi í stórum sjúkrahúsum, að starfi í fámennu og afskekktu sveitahéraði.  Það varð mér til hjálpar, að hinn frumstæði maður hefur alltaf verið mér næsta hugstæður.  Ég hef unað mér vel meðal sveitafólks, og hef átt auðvelt með að skilja það, og fylgjast með því, í starfi og striti, gleði og sorg.  Mér finnst ég hefa skilið það líkt og sveitadrengurinn og skáldið Örn Arnarson er svo kvað:

“Þú skilur hve annríkt þeir eiga
til innsveita djúpmiðum frá,
sem nytja vorn harðbýla hólma,
og hafdjúpin grimmlynd og flá.
Þar líturðu landher og flota,
þótt liti ei vopn þeirra blóð.
Sú breiðfylking ein er til bjargar,
hún brauðfæðir íslenzka þjóð.”

Ég sakna liðinnar kynslóðar með sitt æðruleysi, þolgæði og þrautseigju, og hinn innra frið, skapfestu, og miklu sálarró.  Ég sakna hinnar stórmerkilegu fornu, einföldu, óbrotnu og heilnæmu matarmenningar, sem nú er á undanhaldi fyrir ofboðslegu sætabrauðsáti, og öðrum dárskap.  Ég harma hnignun íslenzkrar tungu, tungu Snorra Sturlusonar og Njáluhöfundar, sem nú er verið að kæfa í útlendum slettum, slángorðum, rassbögum, flámæli og þágufallssýki, og bið menn minnast þess að Matthías kvað:

“Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
Darraðarljóð frá elztu þjóðum;
heiptareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma.
Land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum – geymir í sjóði.

Ég hef átt því láni að fagna að geta veitt tilsögn, og komið á framfæri til langskólanáms, nokkrum gáfuðum, námfúsum, og mjög efnilegum ungmennum, sem reynzt hafa síðan nýtir borgarar.  Hafa sum þessara ungmenna síðar veitt mér mjög ánægjulega viðurkenningu fyrir starf mitt.  Hinu ber ekki að gleyma að ég hef bæði beint og óbeint hlotið margskonar viðurkenningu fyrir störf mín hér.  Nefni ég þar til hinn mikla sóma er mér var sýndur með heillaskeytum og gjöfum á 50 ára afmæli mínu, og síðar á 60 ára afmæli.  Fyrir þá viðurkenningu, og þann hlýhug, er ég innilega þakklátur.  En mesta viðurkenningu frá stéttar-bræðrum mínum hef ég þá hlotið, er danskur kvenlæknir, sem vann með mér á sjúkrahúsi í Noregi, og lenti í deilu við mig út af nýkomnum ísl. lækni, mælti til mín að lokum þessum orðum:  De er lykkelig, hr. Vilhjálmsson.  De er den eneste kandidat her paa sygehuset, som ikke bliver kritiseret.  Á íslensku:  Þér eruð heppinn, Árni Vilhjálmsson.  Þér eruð eini kandidatinn á sjúkrahúsinu, sem ekki er gagnrýndur.

Á þeim 40 árum, sem nú eru liðin síðan ég tók embættispróf í læknisfræði hefur orðið gjörbylting á sviði eðlisfræði, efnafræði og læknisfræði.  Margt af því, sem menn þá töldu fjarlægan framtíðardraum hefur rætzt á skömmum tíma.  Þá var talið mögulegt að byggja upp í verksmiðjum ólífræn efna-sambönd.  Hitt datt engum þá í hug, að hægt yrði á sama hátt, að byggja upp hin flóknu lífrænu eggjahvítusambönd.  Nú er það orðið leikur einn.  Engum gat þá heldur til hugar komið, að hægt yrði að framleiða lyf sem eytt gætu banvænum sýklum, án þess að skaða frumur líkamans.  Engum gat þá heldur til hugar komið, að hin hvimleiða mygla og fúki í koppum og kirnum, húmi og skotum byggi yfir þeim undraverða eiginleika, að geta framleitt lyf er grandað gætu skaðræðis sýklum, og útrýmt einum mesta bölvaldi mannkynsins, farsóttunum, að mestu.  Með tilkomu súlfalyfjanna á fjórða tug aldarinnar rættist þessi óskadraumur læknanna, og brotið var blað í sögu læknavísindanna.  Síðan hefur komið á markaðinn mikill fjöldi undraverðra lyfja af þessari gerð, fúka- eða myglulyfjanna, sem allir kannast við.

Mér verður ógleymanlegur sá atburður, er ég gaf sjúklingi í fyrsta sinn súlfatöflur.  Það mun hafa verið um miðjan fjórða tug aldarinnar, að landlæknir sendi héraðslæknum símskeyti, og bað þá veita athygli hinu nýja lungnabólgulyfi frá May & Baker í London, er gekk undir nafninu M&B 693, en það voru súlfapyridintölfur.  Ég brá skjótt við og pantaði töflurnar.  Skömmu eftir að ég hafði fengið þær var ég kallaður til Jóns Sigurjónssonar á Vogum.  Hann var fársjúkur.  Hafði 40° hita, ákaft tak og blóði drifinn uppgang.  Hér var ekki um að villast.  Sjúklingurinn hafði taksótt, hina skaðvænlegu tak-lungnabólgu, er jafnan varð 25% þeirra að bana, er hana fengu.  Ég gaf nú sjúklingnum byrjunarskammt af súlfatöflunum, og sagði fyrir um frekari gjöf.  Næsta dag, eða nákvæmlega 24 stundum síðar, kom ég til sjúklingsins.  Hann var þá alheill og kenndi sér einskis meins.  Hitinn var horfinn, takið horfið, uppgangur enginn, og við hlustun var ekkert að finna í lungum hans.  Undrið mikla hafði skeð.  Hægt var að lækna einn hinn mannskæðasta sjúkdóm og bölvald mannkynsins, með einfaldri lyfjagjöf.

Við lifum á framfaratímum.  Farsóttum hefur að mestu verið útrýmt, og mörgum öðrum skaðræðissjúkdómum.  Húsakynni hafa stórbatnað.  Í stað moldar-bælanna gömlu eru komin ný traust húsakynni með alls konar tækjum til að létta heimilisstörfin.  Vélar hafa tekið af mönnum mesta erfiðið.  Allir hafa nóg til að bíta og brenna, já, jafnvel meira en hollt er.  Því eru þá ekki allir ánægðir og hamingjusamir?  Kristur sagði:  Hvað mundi það gagna manninum þó að hann eignaðist allan heiminn, ef hann biði tjón á sálu sinni.   Það sem að er, er það að “sinnið er allt úr skorðum”.  Hinn vestræni heimur hefur eignazt allan heiminn, og háloftin með, en hann hefur beðið tjón á sálu sinni, er að verða, og þegar orðinn, sálsjúkur.  Þess vegna ærast menn út af einskisverðum hlutum, og kunna ekki að greina á milli þess, sem er hættulegt og hins, sem er einskisvert.

Á laugardag fyrir páska árið 1888 yrkir sér Matthías eitt af sínum stórkvæðum:  “Hafísinn”, en þá voru hafþök fyrir Norðurlandi og ömurlegt um að litast.  Þar segir hann:

“Ertu kominn, landsins forni fjandi?
Fyrstur varstu enn að sandi,
fyrr en sigling, sól og bjargarráð.
Silfurfloti, sendur oss að kvelja!
Situr ei í stafni kerling Helja,
hungurdiskum hendandi yfir gráð?
Svignar Ránar kaldi móðurkviður
knúinn dróma, hræðist voðastríð,
stynur þungt svo engjast iður,
eins og snót við nýja hríð.

Hvar er hafið, hvar er beltið bláa,
bjarta, frjálsa, silfurgljáa?
Ertu horfin, svása svalalind?
Þá er slitið brjóst úr munni barni;
björn og refur snudda tveir á hjarni,
gnaga soltnir sömu beinagrind.
Þá er úti um frið og fagra daga,
frama, dáð og vit og hreystiþrótt
þá er búin .þjóð og saga,
þá er dauði, reginnótt.”

Í lokaerindi kvæðisins talar spekingurinnn og þjóðskáldið til lýðsins, sem er hreldur, þjakaður og kvíðinn, og segir:

“Hel og fár þér finnst á þínum vegi,
fávís maður, vittu, svo er eigi,
haltu fast í Herrans klæðafald!
Lát svo geisa lögmál fjörs og nauða,
lífið hvorki skilur þú né hel:
Trú þú.

Það eru fleiri en séra Matthías, sem telja að lausnin á vandanum sé einmitt trúin.  Auk kirkjunnar manna eru einnig margir vísindamenn, læknar og spekingar nútímans sömu skoðunar.  Nútímavísindin hafa kollvarpað trúnni á efnið.  Margt virðist styðja þá skoðun, að tilveran sé ekki efni heldur andi:  “Hinn mikli eilífi andi, sem í öllu og allsstaðar býr”, og að efnið sé aðeins visst form eða fyrirbæri andans.  Það er engum efa undirorpið að það er rétt, sem séra Matthías segir:  Maðurinn skilur hvorki lífið eða dauðann.

Stjörnufræðingar nútímans gizka á að þvermál alheimsins sé um 70 billjón ljósár, þ. e. að ljósið sé 70 billjónir ára að fara þvert í gegnum alheiminn.  Þegar þess er gætt að hraði ljóssins er 300.000 kílómetrar á sekúndu, er fljótséð, að mannlegur heili fær ekki skynjað eða skilið óravídd tilverunnar.  Mannskepnunni er því ekki annað eftir skilið, en að láta í minni pokann, og hlýða boði séra Matthíasar:  “Hreyk þér eigi, þoldu, stríddu.  Þú ert strá, en stórt er drottins vald.”

Í ákafri leit að veraldargæðum hefur vestrænum menningarþjóðum tekist að vekja upp draug, sem þær fá eigi kveðið niður aftur.  Óttast nú margir að draugur sá megi granda öllu mannkyni, ef einhverjum hálfbrjáluðum stjórn-málamanni skyldi detta það snjallræði í hug, að þeyta kjarnorku- eða vetnissprengju í hausinn á andstæðingunum.  Mundi þá rætast spásögn Völuspár um heimsslit:

“Surtur ferr sunnan
með sviga lævi, – þ. e. eldi –
skín af sverði
sól valtíva. – þ.e. sverð hans skín sólu bjartara
Grjótbjörg gnata, – björgin nötra –
en gífr rata – þ. e. tröllin í hömrunum farast –
troða halir helveg,
en himinn klofnar.”

Ég minnist með söknuði margra mætra samferðamanna og kvenna í héraðinu, sem nú hafa safnast til feðra sinna.  Ég minnist með þakklæti Þórunnar Kristjánsdóttur, sem um langt skeið aðstoðaði mig við vandasöm læknisverk, og annaðist konu mína eftir barnsfæðingar.  Ég færi Sigrúnu Jakobsdóttur beztu þakkir fyrir ágæta liðveizlu, og þjónustu við sængurkonur, þau tvö ár, sem héraðið hefur verið ljósmóðurlaust.  Héraðið á þar mikilhæfa konu, sem vart hefur verið metin að verðleikum.  Ég óska öllum íbúum héraðsins friðar, farsældar, og blessunar, og bið þess, að þeir megi vaxa að vizku og náð hjá Guði og mönnum.

Ég kveð fagurt og blómlegt hérað, og hina blíðu suðvestanátt, hina ljúfu laufvinda Jónasar Hallgrímssonar.  Ég þakka boð ykkar hér í kvöld, og vinsamleg orð í garð okkar hjóna.

Þökk fyrir áheyrnina.