Samskipti Árna Vilhjálmssonar við Skattstofu Reykjavíkur

Hér að neðan má finna skemmtileg samskipti Árna Vilhjálmssona og Skattstofu Reykjavíkur. Fyrst kemur upphaflegt erindi Skattstofunnar og þá andsvar Árna.

Upprunalega er raunar til skannað – sjá hér.

 

Erindi skattstofunnar:

 

Skattstofa Reykjavíkur
Afgreiðslutími 10-4
Sími 26877
Reykjavík, 7/12 1976

Með tilvísun til laga um tekjuskatt og eignarskatt, er hér með skorað á yður að láta í té
skýringar á neðanskráðum atriðum varðandi skattframtal yðar árið 1976.

Skriflegt svar sé komið til Skattstofunnar í síðasta lagi þ. 14/12 næstkomandi.

Á kona yðar kr. 57.500.- hlutabréf í Eimskipafélaginu hf og hefur hún fengið greiddan arð kr.
6900.- 1975? Hvenær eignaðist hún þessi hlutabréf, ef þau eru hennar eigin?

Nafnnúmer yðar 0542-2817 óskast tilgreint í svarbréfi.

F.h. skattstjórans í Reykjavík

Skúli R. Guðjónsson

 

 

 

Svarbréf Árna

Skattstofa Reykjavíkur.

Svar við bréfi yðar 7/12 ´76:

Tölur yðar um hlutabréfaeign konu minnar í Eimskipafélagi Íslands, svo og arðgreiðslu 1975,
rengi ég ekki, enda þótt mér sé alls ókunnugt um hvorutveggja.

Tengdafaðir minn Rolf Johansen kaupmaður á Reyðarfirði hafði mikinn áhuga um stofnun
Eimskipafélags Íslands og vann af miklu kappi að söfnun hlutafjárloforða til handa félaginu
á Austurlandi. Safnaði hann í þrem lotum og fór þá víða um Austfirði og Austurland. Eftir
hverja af þessum lotum gaf hann elztu dóttur sinni Aagot 25 króna hlutabréf í félaginu,
samtals 75 kr. Ennfremur erfði þessi elzta dóttir kaupmannshjónanna á Reyðarfirði 50 kr.
hlutabréf eftir móður sína og 50 kr. hlutabréf eftir föður sinn. Átti hún því samtals 175 kr.
í fyrstu hlutabréfum félagsins. Á síðari árum hefur Eimskipafélagið gefið hluthöfum sínum
myndarlega viðbót í eigin hlutabréfum. Frá upphafi og allt (til) síðasta árs hefur kona mín
varið öllum arði af hlutabréfum sínum til kaupa á nýjum hlutabréfum til minningar um
foreldra sína og hið mikla áhugamál föður síns um eimskipafélag, sem væri sameign allrar
íslenzku þjóðarinnar. Þannig hefur henni á fimmtíu árum safnast nokkur eign í hlutabréfum
FÍ, smávægileg í augum nútímans, en stór í augum aldamótamannanna sem skildu að
siglingar eru nauðsyn smávaxinni eyþjóð. „Navigare necesse“, siglingar eru nauðsyn.

Virðingarfyllst

Árni Vilhjálmsson

Tagged with:

Leave a Reply