“Allir eru frískir hjer”

Bréf frá móður til Árna

Bréf frá Sigtryggi bróður

Bréf til Árna frá Sigtryggi bróður hans.

Ytra-Álandi 29. maí 1927

Kæri vinur!

Jeg er hræddur um að jeg sje búinn að missa nokkrar Vopnafj.ærnar austur yfir, elti slóðir eftir þær í gær inn að Skarðslæk en sá enga slóð þar fyrir innan og verður að álíta að þar hafi þær farið yfir.  Mig vantar 13 en eitthvaðaf þeim getur verið að lórast hjer enn, minsta kosti sáust tvær í vikunni, og svo vantar af gemlingunum.

Jeg býst við að þið sendið seinni vikunám (?) nú í vikunni og verð jeg þá að biðja ykkur fyrir þær; sjerstaklega bið jeg þig að ná til þeirra í Hvammi, því þær munu koma að Hafralónsánni.

Ef dregst með smölun eða þeir búast ekki við að fara nema skamt inneftir væri ef til vill rjett að reyna að fá mann hjá þeim til að leita inneftir og sjerstaklega ef ekkert kemur fyrir í smöluninni.

Með vinsemd og kærri kveðju, þinn Sigtr. Vilhjálmsson

——————–

Ytra-Álandi 5. apríl 1928

Kæri bróðir!

Það hefur dregist lengur en jeg ætlaði að gefa þjer reikning yfir viðskiftin s.l. ár.  Það sem jeg með tók er:

52 dilka- og ærslátur á                   1.25                       Kr.          65.00
1 hrútsslátur                                   3.00                       „                3.00
42 kg  mör                                          1.20                       „              50.40
75 „    ærkjöt                                     0.45                       „              33.75
5    lömb                                            18.00                     „              90.00
Als          Kr.       242.15

Á móti kemur:
Fyrirhöfn á kindunum                   2/00 á k.              „           150.00
Fjallskil                                                 0/60                       „              45.00
Als          Kr.       195.00

Mismunurinn er því kr.  47.15 og átt þú það hjá mjer.

Ærnar sem jeg tók til lífs urðu 56, af þeim hefur þú 14 svo það eru 42 sem jeg tók við.  8 ær setti jeg á til að hafa geldar, ein þeirra dó úr lungnaveiki í góðu tíðinni fyrir jólin, annað hefur ekki drepist af þessum ám í vetur.  Tvær ær vantaði af fjalli, ein drapst í vor og fannst dauð í sumar.

Eins og jeg gat um í haust slátraði jeg 45 lömbum, 2ur ám og hrútnum á Þórsh. og 5 ám heima.  Þær voru mjög ljelegar, skrokkarnir vigtuðu 14-16 kg.  Gærur af þessum kindum öllum lagði jeg inn og auk þess skinnið af sumrungunum, svo það ættu að vera 54 skinn.

Góður hefur veturinn verið, aðeins hart á þorranum en þá gáfum við þó ekki landvönu ánum, en öllum aðkomuám og lömbunum.  Vopnurnar hafa þrifist sæmilega, eru samt þunnar sunar enda voru þær holdlitlar í haust.  Gemlingarnir eru í skít, lungnaveikir með drullu og má búast við að þeir drepist eitthvað nema það fari að gróa.

Bráðafár hefur gert töluvert vart við sig hjer í vetur en jeg hef sloppið vel við það, ekki mist nema 2 ær, en það eru víst farnar 2 ær og 2 eða 3 lömb úr því á hinu búinu.

Þorlákur er að flytja í Svalbarð, ekki bauð hann mjer jörðina og jeg hafði ekki skap til að biðja hann um hana, enda hefði það ekki verið til neins.  Hann leigir hana strák utan af Sljettu, syni Eiríks sem var í Borgum.

Allir eru frískir hjer.

Vertu blessaður og sæll og skilaðu kærri kveðju til konunnar og barnanna.   Þinn br.  Sigtr.

Posted in Bréf