“Hjartkæri sonur minn”

Bréf frá móður til Árna

Bréf frá móður til Árna

Bréf til Árna Vilhjálmssonar frá móður hans.

Utanáskrift:
Hr. stud.med  Árni Vilhjálmsson, Reykjavík

Ytribrekkum 19. september 1919

Hjartkæri sonur minn.

Mína hjartans ósk um að prófið gangi vel og að þú getir skilið sáttur við alla og allt þar í Reykjavík eiga línur þessar að færa þjer.
Jeg þakka þjer innilega öll brjefin þín og allt mjer til gleði gjört.

Jeg býst við að þú verðir laus við prófið áður en þessar línur koma til þín en jeg býst við að þær nái þjer í Reykjavík.

Mjer líður eptir hætti fremur vel, að vísu eru nú einkenni ellinnar með árum að smágjöra vart við sig, jeg reyni að taka lífinu með ró og láta ekki smáatvikin trufla mig.

Enn hefur sú mæða strítt á okkur að fá aflalítið sumar og mjög stirða tíð, spretta á túnum og engi mun hafa verið nærri meðallagi en svo dauðans óþurkasamt að flestir hafa verið að klára inn töður sínar þessa daga, því þurkflæsur hafa verið nú í tvo daga, en mikið lagaðist ástand manna ef það næðist inn með þolanlegri verkun sem menn eiga laust nú þó seint sje.

Bræður þínir eru víst búnir að fá í garð hey með þeim bestu en þó finst þeim það lítið. Afli hefur enginn verið hjer innfjarðar fyr en nú nokkra daga á undan ofurlítill reitingur af smákolum á lóðir.

Engin stórveikindi hafa verið hjer í sumar og engir dáið en þó hefur gengið hálfvont kvef einkum á börnum og vesalingum, líka hefur skarlatsssótt stungið sjer niður á stöku heimili og gjört talsvert vinnutjón, ein meðal þeirra sem hún hefur gengið hjá eru hjónin á Gunnarsstöðum Jóhannes og systir þín.

Mjer þótti heldur gaman það að Guðmundur bróðir þinn skildi geta heimsótt þig og búið hjá þjer meðan hann dvaldi í Reykjavík, honum leið vel þegar hann kom heim og hafði víst gaman af ferðinni.

Guðmundur minn ætlar að senda þjer inneignarskírteinið mitt og tekur þú það sem þar er og ef jeg á eitthvert lítilræði í sparisjóðsbókinni minni, renturnar, þú lætur mig vita hvað mikið það verður og vona jeg að geta bætt við þig svo það verði eitt þúsund krónur.

Jeg veit ekki annað nú en að Þuríður systir þín fari með næstu ferð til Reykjavíkur og dvelji þar í vetur, máski hún sjái þig þar.

Jeg bið kærlega að heilsa kærustunni þinni og þakka henni tilskrifið, jeg hefði verið búin að skrifa henni línur hefði jeg treyst mjer til þess.

Vertu margblessaður og sæll elsku sonur minn og líði þér og ykkur sem allra best – þín mamma

Posted in Bréf