Bréf Guðmundar Hannessonar til Árna

Bréf frá Guðmundi Hannessyni

Bréf frá Guðmundi Hannessyni

Hjeraðslæknir Árni Vilhjálmsson
Norðfirði.

Rvk. 19/4 1920

Kæri kollegi.

Þakka yður fyrir brjefið 6/4.  Jeg sendi yður nú nokkrar línur til þess að flytja Sundberg direktör fyrir sjúkrah. Í Bergen.  Hann er nú farinn að eldast, getur verið þur á manninn en er ágætis karl.

Svo þurfið þjer að hafa yðar testimonium, bækur, föt og það fje, sem handbært er.  Annan útbúnað þarf ekki.  Hef minst á í brjefi Sundbergs hvað kandidatar hjeðan þurfa helst að læra.  Þjer getið lesið brjefið og lokað því svo.  Þegar þjer farið að kynnast þá reynið að hafa öll útispjót: ganga í læknafjel. í Bergen ef ekki er við því amast, kynnast bestu læknunum, líta inn á laboratoríið hjá Hvalland og sjá hans cancertilraunir ..   Bera sig eftir björginni, áræðinn, glaður og kátur!

Þá er hitt að sjá sem mest og best af landi og þjóð.  Þjer farið til frændfólks sem okkur er nákomnara en allir aðrir útlendingar.  Skrifið hjá yður skipulega það sem markverðast þykir.  Ef til vill getið þjer sent Lbl. línu um eitthvað. –

Já, nú man jeg það, að rjettast er fyrir yður að hafa fullkominn passa með mynd yðar og áskrifaðan af lögreglustjóra.  Þess þurfti með í sumar í Noregi.

Skil ekkert í því hvað inf. er seiglíf á Seyðisfirði.  Annars hafa læknar eystra verið duglegir í að halda henni í skefjum.  Ef hjer hefði verið um illa veiki að ræða þá hefði hún áreiðanlega verið stöðvuð.  Hjer reyndist hún vægari en flestar kvefsóttir gerast.

Sóttvarnarnefndin var skipuð (í jan) til þess að koma sóttvörnunum af stað, en ekki ráðgerður lengri tími en 1-2 mán. sem hún starfaði.  Jeg vildi ekki vera lengur.  Vil ekki búta stjórn heilbrigðismála í marga búta eins og nú er orðið.

Gangi yður ferðin vel.  Það er ótrúlega gaman að koma til útlanda í fyrsta sinnið.

Ef þjer ferðist eitthvað – stúderið fyrst góða ferðamannabók yfir svæðið.

Yðar

Guðm. Hannesson

Posted in Bréf