Bréf frá Skógum 1995

Bréf til Aagotar Árnadóttur frá Jóni Þorgeirssyni og frú.

Skógum, 7. des. 1995

Kæra Aagot.

Við biðjumst afsökunar á því, hversu seint þetta minningakort berst ykkur í hendur.  Ástæðan er sú, að skrifa átti nokkur orð með, en “andinn er ekki alltaf reiðubúinn”.

Við söknum þess að fá ekki lengur jólakort frá “frú Aagot” með góðum óskum og fréttum af stórfjölskyldunni, tilskrif sem alltaf sýndi styrk hennar, jafnt huga sem handar, og var okkur kærkomið.

Við eigum í fórum okkar einkabréf frá pabba þínum frá 1961, mikinn dýrgrip, sem er tryggilega geymdur, ekki aðeins hvað hirslu varðar, heldur og eigi síður í hug og hjarta.

Minningin um hann er sterk í okkar huga, ekki einungis um lækninn sem framkvæmdi mikla snilldaraðgerð á Jóni 10 ára gömlum, við erfiðar aðstæður, og fleiri síðar, lækninn sem var þess umkominn að lífga dóttur okkar við nýfædda, lækninn sem tók Jónínu inn á einkaheimili sitt um tíma, þegar næsta fæðing var í vændum og aðhlynningar var þörf, heldur einnig sem sérlega trausts manns, sem átti meiri hlýju innra með sér en ætla mátti eftir yfirborðinu.

Og sama er að segja um hana, sem alltaf stóð við hlið hans, dreifandi birtu og krafti í kringum sig.   Blessuð sé minning þeirra.

Það er allt bærilegt að frétta af okkur, heilsan góð eftir hætti.

Megi komandi jól verða ykkur afkomendum “Árna læknis” og “frú Aagotar” gleðirík og allir tímar góðir.

Kærar kveðjur – Jónína og Jón

Posted in Aagot Vilhjálmsson-Johansen, Bréf