Dagbók úr siglingu með Arnarfelli í apríl …

Til Keflavíkur 6/4.
Skipið ókomið, kom um kl. 4, lagðist að bryggju kl. 10 um kvöldið.
Sat í góðum fagnaði hjá Árna Guðmundssyni og síðan hjá Valgerði Pétursdóttur og Braga
Halldórssyni. Fór um borð um 12 leytið.

7/4
Verið að skipa út í Arnarfell 150 tonnum af fiskimjöli og nokkrum pökkum af
þunnildum. Lagt af stað laust fyrir 7 um kvöldið.

8/4
Suðaustan strekkingur, 4-5 vindstig, dálítil rigning, dimmt í lofti.

9/4
S.v. 4-6 vindstig, bjart yfir, smáskúrir…

10/4
Sunnudagur. Komum í birtingu að Orkneyjum og siglum gegnum Pentlandsfjörð.
Orkneyjar sæbrattar að vestan, móbergshöfðar snarbrattir að sjó. Myndarleg bóndabýli á
báðar hendur með víðáttumiklum grænum túnum. Förum nyrðra sundið milli Orkneyja
og eyja í sundinu. Við aðalvitann að Ströme myndarleg vitavarðarbygging, en bændabýli
er fjær dregur höfðanum. Þokumóða, lítið skyggni.

11/4
Vestan stinningskaldi, skýjað, en skyggni gott. Siglum suður Norðursjó. Kl. 7.50
nálgumst strönd Hollands. Tveir vitar sjást nú þvert á bakborð, Seeveningen. Framundan
Hook von Holland. Á bakborða í móðunni fer fram hjá stórt vöruflutningaskip, ca. 8-10
þús. tonn; það er farið að bregða birtu.

12/4
Vörur losaðar. Síðan farið upp fljót til að sækja superfosfat. Farið undir járnbrautarbrú.
Förum á ýmsa skemmtistaði í bænum og um bæinn. Tré allaufguð, túlípanar víða,
grasvellir iðjagrænir.

13/4
Kl. 10 lokið við að lesta 300 tonn af superfosfati. Síðan haldið niður fljótið til að taka
áburð, 900 tonn. Fórum til Haag og skoðuðum þar friðarhöllina, Putaland og Panorama
af landi og þjóð um 1880. Norðmaður fór með okkur í bíl. Fórum meðfram baðströnd og
glæstum hótelum. Veður þurrt en sólskinslaust.

14/4 Skírdagur –
Bjart veður og sólskin, vestlæg átt. Haldið er áfram lestun á áburði. Civis depresso í
gærkvöld. – H.Ó. órakaður og ákaflega þunnur. Fórm í dýragarðinn og á blóma- og
grasasýninguna.

15/4 Föstudagurinn langi.
Lagt af stað um kl.7 að morgni. Vestan kaldi. Mikil hliðarvelta. Óslitinn skipastraumur.

16/4
Komum að lóðsskipi um kl. 4. Fengum lóðs um 7. Að Kielarskurði rúmlega 10.
Norðanátt, fremur kalt í veðri. Háir skýjabólstrar við sjóndeildarhring. Bjart , sér til
sólar með köflum. Förum gegnum Kielarskurð, komum til Kielar um kl. 6. Haldið áfram
til Wesermunde, lagst úti fyrir til morguns.

17/4 Páskadagur.
Sigldum inn rúmlega 6 að morgni til Wesermunde og Rostock. Vinna við lestun hófst
strax. Nóttin köld og móða yfir. Birti er leið á morgun og hlýnaði í veðri. Sólskin en
skýjabólstrar við sjóndeildarhring. Fórum í land og í bjórkjallarann á járbrautarstöðinni.
Frá Rostock kl. 3 áleiðis til Kaupmannahafnar. Löggæzludama með skammbyssu upp
á vasann og svera fótleggi, vissi vel um vald sitt. Komum til Khafnar um kl. 12.30.
Lágum úti fyrir til morguns.

18/4
Fengum lóðs um kl. 7 að morgni og komum í Höfn. Þórarinn Johansen kom um borð
og dvaldi fram yfir hádegi. Þá hringsólað um borgina í bíl. Komið við á Garði; skoðað
sjódýrasafn – Aqvarium – o.fl. Náði ekki sambandi við frú Lyttik; allir í páskafríi.

19/4 Mánudagur.
Fór að finna frú Lyttik. Hún var ekki heima, ekki væntanleg fyrr en á fimmtudag.
Upp úr hádegi fór Hermann S.Í.S. með okkur í ferð um N-Sjáland. Fórum norður með
ströndinni allt til Kronborgarkastala og skoðuðum hann utan. Síðan suður Sjáland um
vötnin, þ.á.m. Furresöen. Drukkum kaffi hjá Hermanni og frú. Komum til skips um 6-
leytið. Hafnarverkamenn áberandi ölvaðir. Uppskipun lokið um 11, komumst út fyrir kl.
12. Veður bjart og hlýtt.

20/4
Siglum áleiðis til Noregs. Blæjalogn, sólskin og blíða. Lögðumst að bryggju í Heröyja
kl. tæplega 8 um kvöldið.

21/4 Sumardagurinn fyrsti.
Liggjum í Heröyja og bíðum afgreiðslu. Logn og glampandi sólskin, hlýtt í veðri.
Fórum í bílferð upp á fjall fyrir ofan Skien. Þar bjálkakaffistofa og geysifögur útsýn yfir
héraðið. Víða smáfannir meðfram veginum, í vestri alhvít fjöll. Kalas með Færeyingum
og Dönum.

22/4
Lestun lokið kl. 9 að morgni. Sólskin og bjart upp úr, en móða við hafflötinn. Kl. 4
förum framhjá Torungen vitunum, sem eru við innsiglinguna til Arendal. Fram hjá
Lindesnæs rúml. 10.

23/4
Vorum undan Egerö vita kl. 4.30 í morgun. Allhvass NV og frekar kalt í veðri. Kl.
rúmlega 12 reið hnútur yfir skipið að framan og braut undirlag fremstu stjórnborðsbómu.
Farið með hægri ferð meðan verið er að gera við og festa bómuna.

24/4 Sunnudagur –
Förum fram hjá norðurodda Hjaltlandseyja kl. 9.30 að morgni. Alskýjað, gott skyggni, N
NV allhvass með köflum. Mikil hliðarvelta.

25/4
Laust fyrir kl.3 í nótt komum við að Færeyjum. Siglum í byrjandi dagsskímu milli
Sandeyjar og Hesteyjar. Ljósin í Ness á bakborða. Siglum vestur með Hestey og Vaagey
til Myggenes. Förum fram hjá Myggenes um kl. 4.45. Vestankaldi, þoka niður á miðjar
eyjar. Smáléttir til. Myggenes viti á háum höfða, en fram úr lágt nes með hrauk miklum
með 2 smá… Kl. 12 vestan kaldi, þokumóða.

26/4
Vestankaldi, Dumbungur, grillir í land kl. 9.30 að morgni. Kl. 12 Erum undan
Hjörleifshöfða. Vestan stinningskaldi, bjart til jökla. T.d. er Mýrdalsjökull alveg hreinn.
Dyrhólaey fyrir stafni.

Tagged with: